Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur hjá samgöngu- og umhverfissviði Verkíss, greindi frá þessu í Facebook-færslu í kvöld. Þar sagði hann skeytið hafa náð landi í Fuglenesbukta sem er skammt vestan við bæinn Berlevåg í norðurhluta Noregs.
Í færslunni kemur fram að skeytið hafi lengi vel hringsólað á hafsvæðinu milli Íslands og Færeyja en undir lok september hafi það tekið stefnu norðaustur í átt að Noregi. Skeytið hefur því ferðast meira ein 5000 kílómetra langa leið.
Ferðalag skeytisins, sem búið er sérstökum GPS-sendi sem gefur upp staðsetningu skeytisins á sex tíma fresti hefur þó ekki gengið snurðulaust fyrir sig en í frétt af vef Verkíss segir frá því að þann 20. júlí, fjórtán dögum eftir að skeytið var sent af stað, hafi það strandað í Herdísarvík. Það var þó sjósett að nýju og kom ekki að landi fyrr en í dag, 164 dögum síðar.
Áhugasamir hafa getað fylgst með ferðalagi flöskuskeytisins á síðu Verkíss og hér er hægt að sjá leiðina sem skeytið ferðaðist.