Skoðun

Áhyggjur bannaðar

Láru G. Sigurðardóttir skrifar
Ég sit undir loftkælingu á Hawaii eyjunni Kauai. Hitinn er svo mikill að mann langar til að spranga um á nærklæðunum einum fata. Kauai er svolítið eins og Heimaey nema 100-falt stærri að flatarmáli. Þar er afslappað andrúmsloft, villt hænsni í staðinn fyrir lunda á vappi við verslanir og heimahús, og ég hef ekki séð neinn pirrast í umferðinni. Ósjálfrátt hægist á öllum hugsunum hérna.

Í handbók um Kauai hnaut ég um setningu þar sem segir að ólöglegt sé fyrir ferðamenn að taka áhyggjur með sér á eyjuna. Nú veit ég ekki hvort maður yrði hnepptur í fangelsi ef maður færi að ræða áhyggjur sínar af loftslagsbreytingum eða hve erfitt væri að hneppa buxunum eftir ísinn sem maður var að éta.

Þessi óopinbera regla innfæddra fékk mig þó til að hugsa – frí eru sannarlega til að njóta en ekki veltast um eigin hugsanaflækjur. Einu sinni áður hef ég rekist á álíka reglu og það var í skólanum þar sem ég nam jógafræði á Íslandi. Og svo þegar ég sjálf stofnaði fyrirtæki ákváðum við að fylgja sama hætti og skilja eigin áhyggjur eftir við þröskuldinn.

Mér finnst þessi regla að skilja áhyggjurnar eftir bara nokkuð viðeigandi. Það er nefnilega enginn annar en maður sjálfur sem er flugumferðarstjóri eigin hugsana. Eins og þeir stjórna ekki hvaða flugvélar koma í ratsjána þá stjórnum við ekki hvaða hugsanir sækja að okkur. En líkt og flugumferðarstjóri stjórnar flugumferð þá getum við annaðhvort hleypt umferð þessara hugsana um okkar ratsjársvæði eða vísað þeim frá – allavega þessum dags daglegu. Og finna fegurðina í umhverfinu og fólkinu í kringum okkur en hér heilsast allir og kveðja með aloha - sem í raun táknar ást, frið og samkennd.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×