Markaðsstofa Norðurlands kallaði saman helstu hagsmunaaðila á ráðstefnu í Hofi á Akureyri í dag til að ræða framtíð flugs um Akureyrarflugvöll. Kallað var eftir skýrum svörum frá yfirvöldum hvort að leggjast eigi í uppbyggingu á Akureyrarflugvelli eða ekki.
Meðal þeirra sem hélt erindi á ráðstefnunni var Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. Í máli hans kom fram að hann teldi uppbyggingu Akureyrarflugvallar vera byggðamál og sem slíkt væri það á könnu ríkisins en ekki Isavia að ákveða hvort ráðast ætti í mikla fjárfestingu á flugvellinum.
Rúmlega milljarður inn á svæðið í ár frá bresskum og hollenskum ferðamönnum
Heimamenn hafa lengi barist fyrir því að flugvöllurinn verði endurbættur með millilandaflug í huga. Fréttir um aðstaða á vellinum sé ekki nógu góð eru orðnar margar og nú vilja ferðaþjónustuaðilar á svæðinu fara að sjá glitta í ákvörðun hvort af verði uppbyggingu eða ekki.„Við erum að kalla eftir því að stjórnvöld taki mjög skýra ákvörðun og fylgi henni síðan eftir með því fjármagni og þeim heimildum sem þarf til þess að árangurinn geti náðst,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.
Kynntar voru tölur sem sýna að ferðamenn á vegum bresku ferðaskrifstofunnar Super Break og hollensku ferðaskrifstofunnar Voigt Travel hafi skilað rétt rúmum milljarði inn í hagkerfi svæðisins á árinu, auk markaðssetningar fyrir hundruð milljóna.

Þannig megi byggja upp aðra gátt inn í landið, sem nýtist ferðaþjónustunni á öllu landinu.
„Ég hef áhyggjur af því hvað verður um landið okkar ef við tökum ekki ákvörðun um að byggja upp vegna þess að þetta er þjóðhagslegur ávinningur fyrir allt landið. Þetta er ekki bara byggðamál hérna fyrir norðan, þetta er ávinningur fyrir allt landið,“ segir Arnheiður Jóhannsdótir.