Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg þar sem greint er frá því að staða framkvæmda við uppfærslu á Fossvogsskóla hafi verið rædd á fundi í dag með starfsfólki skólans, skólaráði og foreldrum.
Málefni Fossvogsskóla hafa mikið verið í deiglunni síðustu misserin vegna myglu í skólanum. Til stóð að kennsla yngstu árganganna færi fram í Víkingsheimilinu í Fossvogi, en hætt var við það í kjölfar mótmæla foreldrafélags skólans. Varð úr að skólinn fékk inni tímabundið hjá Hjálpræðishernum.
Næsta haust er hins vegar reiknað með að skólastarfið verði allt í Fossvogsdal.
Börn munu stunda nám í tveimur uppgerðum byggingum, Austurlandi, og Vesturlandi, og að hluta til einnig í einingarhúsum á lóð skólans. Áætlað er að framkvæmdum við Meginland ljúki haustið 2023.
Einangrun innan á útveggjum verður fjarlægð í Vestur og Austurlandi, þær verða einangraðar að utan og klæddar með álklæðningu. Allir gluggar og útihurðir verða endurnýjaðar og lokið við að endurnýja öll þök. Ennfremur verða innveggir fjarlægðir og endurbyggðir í samræmi við gildandi eldvarnarkröfur, raflagnir og pípulagnir verða endurnýjaðar sem og loftaefni og gólfefni.
Loftræsting allra húsa verður yfirfarin og virkni breytt með tilliti til bættrar innivistar. Þá er unnið að breyttu innra skipulagi á húsnæðinu svo byggingarnar henti betur fyrir nútíma kröfur í kennslufræði, að því er fram kemur í tilkynningu frá borginni.