Skoðun

Sam­þætting þjónustu við eldra fólk

Halla Signý Kristjánsdóttir skrifar

Á síðasta kjörtímabili var mikil vinna lögð í breytingu á þjónustu í þágu farsældar barna. Útkoman úr þeirri vinnu voru farsældarlögin svokölluðu og innleiðing á þeim er farin á stað og lofar góðu. Samstarf um aukna þjónustu í þágu farsældar barna er framtíðarstef í velferð barna til að vaxa sem fullgildir einstaklingar í íslensku samfélagi. Þegar þessar breytingar verða að fullu virkjaðar má búast við miklum framförum í þjónustu við börn. Samfella í þjónustu skilar betri niðurstöðu fyrir barnið og samfélagið sjálf. Þeir sem vinna í þjónustu barna hafa fagnað þessari hugarfarsbreytingu sem lengi hefur verið kallað eftir og þegar var farið að talað um að nýta þessa hugmyndafræði þessa fyrir aðra þjónustuhópa.

Það hefur nú verið gert

Heilbrigðisráðherra ásamt félags- og vinnumarkaðsráðherra ýttu í gær úr vör drög að aðgerðaáætlun til fjögurra ára um þjónustu við eldra fólk. Um er að ræða heild­ar­end­ur­skoðun þjón­ustu við aldraða og eru fimm þætt­ir lagðir til grund­vall­ar: Samþætt­ing, virkni, upp­lýs­ing, þróun og heim­ili. Ber verkefnið heitið – Gott að eldast. Líkt og kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar.

Heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið hafa svo sannarlega tekið verkefnið af fullri alvöru upp á sína arma og stendur til að leggja fram þingsályktunartillögu á komandi vorþingi sem felur í sér aðgerðaráætlun um samþættingu á þjónustu við eldra fólk með það að markmiðið að tryggja eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um ræðir heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu. Um er að ræða samfélagslegt umbótaverkefni sem á að efla þjónustu við eldra fólk og auka samvinnu og samþættingu milli heilbrigðiskerfisins og félagsþjónustu.

Þjónusta á forsendum þjónustuþega

Þjóðin er að eldast og breytt aldurssamsetning þjóðarinnar kallar á að samfélagið þurfi að aðlagast með. Við þurfum að leita nýrra og lausnamiðaðri leiða ásamt því að auka samvinnu og samtal. Það er mikilvægt að þjónusta sé veitt þegar hennar er þörf á forsendum fólksins sjálfs. Forvarnir, heilsuefling og endurhæfing spila stórt hlutverk í heilbrigðri öldrun þjóðarinnar til framtíðar. Við viljum að fólki geti látið sig hlakka til efri áranna og síðustu áratugir ævinnar eiga að vera meðal þeirra allra bestu. Það er fátt verðmætara samfélaginu en að viðhalda færni og virkni einstaklingsins. Líkt og með breytingar í þágu farsældar barna er þetta verkefni sem nú er hafið arðbært fyrir þjóðfélagið. En mesti ábatinn er að þegar þessi hugmyndafræði verður komin inn í alla þjónustu sem snýr að eldra fólki því þá verður heldur betur gott að eldast á Íslandi.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Þingmaður Framsóknar




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×