Landsmót hestamanna áréttar í tilkynningu á vefsíðu mótsins að allt streymi af mótinu er einungis hjá Alendis og hvergi annars staðar.
„Rétta facebook-síða mótsins er Landsmot hestamanna (ekki með ó-i og engu ártali), síðan er "like-síða" með um sautján þúsund fylgjendum og við sendum ENGAR vinabeiðnir til fólks,“ segir í tilkynningunni en á Facebook má finna fjölmarga hópa og síður sem að óprúttnir aðilar halda úti.
Sem dæmi má nefna Facebook-hópin Landsmót hestamanna 2024 (Official) sem um 2.300 manns eru hluti að en þar eru meðlimir hópsins hvattir á ensku til að smella á hlekk sem á að leiða fólk á beint streymi af mótinu. Landsmót hestamanna hvetur alla sem kunna að fá vinabeiðnir eða boð frá slíkum síðum að hunsa það alfarið.