Skoðun

Við þurfum Grím á þing

Hanna Katrín Friðriksson skrifar

Það skemmtilegasta og jafnframt það lærdómsríkasta við starfið í stjórnmálum er að kynnast fólki. Alls konar fólki með alls konar viðfangsefni í lífinu, alls konar þekkingu og reynslu. Þetta á alltaf við en sérstaklega þó í kosningabaráttu. Þessi kosningabarátta er þar sannarlega engin undantekning. Stefnuleysi og verkstol síðustu ríkisstjórnar hefur gert að verkum að fólki er mikið í mun að á það sé hlustað. Því ákalli höfum við í Viðreisn svarað. Við höfum líka notið góðs af stórum og öflugum hópi fólks sem hefur gengið til liðs við flokkinn á síðustu vikum og mánuðum.

Úr þeim öfluga hópi langar mig að nefna hér sérstaklega Grím Grímsson, manninn sem skipar baráttusætið hjá Viðreisn í Reykjavíkurkjördæmi Norður. Grímur hefur verið yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu um árabil ef frá eru talin þrjú ár þar sem hann var tengiliður Íslands hjá Europol í Hollandi. Eðli málsins vegna er Grímur hafsjór þekkingar um öryggismál almennt, þar með talið löggæslumálin sem hann segir hreint út að vanti fjármagn. Hann hefur sérstakan áhuga á því að samfélagið taki betur utan um börn í vanda og hefur reynst öflugur málsvari stefnu Viðreisnar í geðheilbrigðismálum barna. Viðvörunarorð Gríms varðandi vöxt skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi eru flestum kunn og þar hefur hann líka lagt áherslu á að stjórnmálin taki þetta strax föstum tökum.

Þetta er bara brotabrot af þeim styrkleikum Gríms sem munu gera hann að öflugum þingmanni fyrir þjóðina. Til þess að svo verði, þarf hann stuðning kjósenda. Það er stuðningur sem mun borga sig fyrir land og þjóð.

Grím á þing!

Höfundur er oddviti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi Norður.




Skoðun

Sjá meira


×