40 ára ráðgáta leyst Arnór Bjarki Svarfdal skrifar 12. desember 2024 07:32 Í síðasta mánuði leystist ein stærsta ráðgáta internetsins. Ráðgátan er 40 ára gömul, en vinna að lausn hennar hófst af alvöru fyrir 17 árum síðan. Þann 4. nóvember 2024 leystist svo loks ráðgátan um „dularfyllsta lag internetsins“. Ekki byrjunin Við skulum byrja, ekki á byrjuninni, heldur árið 2007. Á spjallborðinu Spirit of Radio var ýmislegt rætt um útvarp; tónlist, tækni og sögu þess. Notandi sem gekk undir nafninu bluuue setti inn á spjallborðið 80 sekúndna hljóðbrot úr lagi sem hann hafði heyrt í útvarpinu einhvern tímann snemma í áttunni og vildi bera kennsl á það. Lagið var hresst en ögn drungalegt og rokkskotið nýbylgjupopplag, með einkennandi hljóðgervli, seiðandi baritónsöngvara og kom manni strax í stuð. Í raun týpískt 80‘s lag og hljómaði eins og það hefði getað verið mjög vinsælt lag á sínum tíma. Það hlyti nú að vera lítið mál að komast að því hvaða lag þetta væri. En allt kom fyrir ekki. Enginn þekkti lagið. Þetta var óvenjulegt, því það var nokkuð algengt að „óþekktum“ lögum væri hlaðið upp á Spirit of Radio, en samfélaginu þar tókst alltaf að bera kennsl á lögin, öll nema þetta. Laginu var fljótlega dreift á önnur spjallborð þess tíma, t.d. Usenet og WhatZatSong og internetlýðurinn tók ákaft að leita að uppruna lagsins, en án árangurs. Lagið fékk fljótlega heitið „Like the wind“ eftir fyrstu línunni í lagatextanum (sem var þó ansi óskýr). Ráðgátan heltók marga, en sérstaklega einn ungan brasilískan hljóðtæknimann að nafni Gabriel Vieira. Í kringum 2010 höfðu flestir gefist upp á leitinni nema Gabriel – hann hélt áfram að leita og fékk kunningja sinn Nico til liðs við sig, en sá rak antík-vínylsöluna Dead Wax Records og var sérfræðingur í 80‘s tónlist. Saman rak þá hvorki lönd né strönd þrátt fyrir þrotlausa, áralanga leit. Á sama tíma virtist upprunalegi leitandinn, bluuue, hafa horfið af internetinu. Loks fór eitthvað að gerast vorið 2019, þegar Gabriel Vieira datt í hug að fylla Reddit af fyrirpurnum um lagið (Reddit er spjallborð sem skiptist í þúsundir undirspjallborða um sértæk áhugamál, svokölluð subreddit). Hann fór inn á öll subreddit sem honum datt í hug og spurði út í lagið, en stofnaði síðan sérstakt subreddit: „The mysterious song“ til þess að sinna leitinni. Þetta blés lífi í áhuga fólks, og innan fárra vikna voru yfir 60 þúsund virkir notendur á subredditinu. Baskerville-hundurinn fer til Þýskalands Upp úr þessu náðu netverjarnir fljótt að komast að því að bluuue hafði fyrir löngu síðan verið virkur á þýskum spjallborðum um tónlist. Þar eð Gabriel Vieira talaði ekki þýsku hafði hann aldrei fattað þetta. Í ljós kom að bluuue hét Anton, hann var frá Bremen og bróðir hans hafði tekið lagið upp af útvarpi í Norður-Þýskalandi snemma í áttunni. Þetta, auk þess að hreimur söngvarans hljómaði evrópskur, olli því að loksins var hægt að þrengja leitina. Lagið hlyti að vera þýskt eða a.m.k. að hafa verið vinsælt í Þýskalandi. Ekkert gekk þó að ná sambandi við Anton eða bluuue. Á gömlu og gleymdu þýsku spjallborði hafði bluuue skrifað að lagið hafi líklega verið tekið upp af útvarpsstöðvunum Bremen 4, NDR1 eða NDR2, og að þátturinn „Musik für junge Leute“ á NDR1 kæmi sterklega til greina. NDR eða Norddeutsche Rundfunk er nokkurs konar RÚV fyrir Norður-Þýskaland. Fljótlega var haft samband við NDR og þar var bent á að breti nokkur, Paul Baskerville, hafi stýrt Musik für junge Leute á sínum tíma og stýrði nú á dögum hinum nostalgíska útvarpsþætti Nachtclub á NDR, orðinn gamall maður. Það er eitthvað skemmtilegt við það að hann heiti sama nafni og hundurinn í ráðgátu Sherlock Holmes… Í júlí 2019 byrjuðu netverjar að hundelta Paul Baskerville, sem þá var í fríi í útlöndum. Hann fékk þúsundir tölvupósta og símhringinga, kannaðist ekki við lagið en lofaði að spila þaÍð í þættinum sínum þegar hann kæmi heim úr fríi. Margar gamlar þýskar 80‘s kempur hlustuðu á þáttinn hans og þær hlytu að geta hjálpað. Áður en Baskerville kom heim úr fríinu dúkkaði upp notandi á reddit, sem hét Johnny og hafði verið virkur í leitinni að laginu árin 2007 til 2010. Hann hafði árið 2009 spjallað við hinn dularfulla Anton á gamla spjallborðinu á Usenet, sem nú var búið að eyða. Þá hafði Anton sent honum lagið í fullri lengd og betri gæðum, og Johnny hafði geymt skránna allan þennan tíma. Hér var kominn fram mikill fjársjóður. Þegar Paul Baskerville kom loks úr fríi gat hann því spilað lagið í fullri lengd í útvarpsþættinum sínum, en viðbrögðin voru því miður engin. Enginn hlustandi gaf sig fram. Netverjar héldu áfram að áreita Paul Baskerville, sem fannst þó fátt um þetta. Hann fullyrti að þetta væri líklega eitthvað demo-tape frá hljómsveit sem hefði aldrei orðið vinsæl, en í þættinum hans á þeim tíma spilaði hann hundruði slíkra laga sem ungir og upprennandi tónlistarmenn sendu inn og féllu jafnóðum í gleymskunnar dá. Paul er sérfræðingur um þýska nýbylgju- og pönktónlist og sagðist myndu skoða plöturnar sínar, en að það myndi taka tíma því hann ætti yfir 10.000 vínylplötur úr áttunni. Hann benti einnig á að tveir aðrir menn hefðu séð um þáttinn með honum, en það stoðaði lítið, því þeir voru Stefan Kuhne, sem var látinn, og Gert Timmermann, sem neitaði að svara tölvupóstum og símtölum. Baskerville setti sig líka í samband við alla sem hann vissi að ráku plötubúðir og tónleikastaði í Norður-Þýskalandi í áttunni, en enginn þeirra kannaðist við lagið. Hann benti einnig skjalavörðum NDR á málið og þeir hófust handa við að grafa í öllum skjölum og upptökum NDR. Sú leit yrði þó löng, því þjóðverjar eru jú þekktir fyrir ítarleg skjalasöfn og skriffinnsku. Verkefnið heltók skjalaverðina og þeir skiptust á að eyða löngum kvöldum í vinnunni, þrælandi launalaust yfir 40 ára gömlum spilunarlistum og upptökum – algjörlega án árangurs. Á meðan héldu netverjar áfram að gera sitt. Laginu var hlaðið upp á YouTube og Spotify í von um að plötufyrirtæki, sem stunda alla jafna óvægna hagsmunavörslu, myndu fara fram á að lagið yrði tekið niður. Ef það gerðist kæmi strax í ljós hver ætti útgáfuréttinn. Það gerðist þó aldrei. Netverjarnir höfðu einnig samband við höfundarréttarsamtök um allan heim, en ekkert þeirra gat borið kennsl á höfundinn. Ein slík samtök eru GEMA, en þau eru þýsk hliðstæða hins íslenska STEF. Þau eru þekkt fyrir að halda stífar skrár yfir öll lög sem spiluð eru í útvarpi í Þýskalandi og ganga hart fram við vernd höfundarréttar. Þar á bæ gat þó enginn fundið upplýsingar um lagið. Gervigreindir og greiningarforrit eins og Shazam og Soundhound skiluðu heldur engum niðurstöðum. Nokkrar 80‘s hljómsveitir lágu undir grun fyrir að vera með söngvara með svipaða rödd, svipuð gítarriff og fleira, t.d. skoska sveitin Boards of Canada, en allar hljómsveitir sem haft var samband við harðneituðu að eiga lagið. Netverjar héldu því áfram að áreita Paul Baskerville – hann hlyti að vera lykillinn að ráðgátunni. Svo mikið varð áreitið að sjónvarpsstöð NDR gerði þátt um lagið þar sem Paul baðst vægðar og lýsti því yfir að honum þætti lagið ekkert merkilegt. Anton fundinn – eða ekki? Þessi þáttur skipti sköpum, því þannig vildi til að bróðir hins dularfulla Antons sá hann í sjónvarpinu. Bróðirinn hét Darius og var sá sem hafði upphaflega tekið lagið upp á kasettu. Hann hélt því einnig fram að Anton héti í raun ekki Anton, heldur Lydia, og væri systir hans. Það kom þeim systkinum í opna skjöldu að þessi sakleysislega forvitni þeirra hafi orðið að risastóru samfélagi á internetinu. Netverjar trúðu þeim tæplega, en þeim Lydiu og Dariusi tókst þó með ýmsum leiðum að sanna að þau væru á bakvið hinn dularfulla Anton eða bluuue á öllum gömlu spjallþráðunum. Nú varð saga lagsins skýrari. Einhvern tímann snemma í áttunni, líklega á bilinu 1982-1984 kom Darius heim úr skólanum og kveikti á útvarpinu. Eins og flesta daga sinnti hann sínu helsta áhugamáli þetta örlagaríka eftirmiðdegi: að taka up lög úr útvarpinu á kasettur og búa til mix-tape. Darius hélt ítarlega skrá yfir öll lög sem hann tók upp í möppum, þar sem hann safnaði kasettunum sínum. Þennan dag tók hann upp lag sem átti seinna eftir að vera þekkt sem dularfyllsta lag internetsins. Honum misfórst að skrá niður nafn lagsins og því er lagið einfaldlega skráð sem „? – Blind the wind“ í möppunum hans góðu. „Blind the wind“ var hans túlkun á óskýrum opnunarlínum lagsins, en nafn lagsins eða flytjandans þekkti hann ekki. Lagið, sem Darius kallaði Blind the Wind, var í raun ekki eina lagið sem var vitlaust skráð í möppurnar. Hann hafði stundað þetta áhugamál daglega í mörg ár, þúsundir laga voru á kasettunum hans og því eðlilega þónokkrar villur í skránni. Það angraði hann. Árið 2004 ákvað því Lydia systir hans að gefa bróður sínum vefsíðu að gjöf. Vefsíðan var nefnd Unknown Pleasures eftir plötu Joy Division, og þar gæti Darius hlaðið inn lögunum sem voru rangt merkt og beðið um aðstoð internetsins við að greina þau rétt. Áður en ár var liðið hafði internetið svarað kallinu og búið var að bera kennsla á öll lögin – nema eitt. Dularfyllsta lagið. Vefsíðunni var fljótlega lokað. Systkinin, sem höfðu verið að leita lagsins í áratugi, urðu nú einhvers konar andlegir leiðtogar internetsamfélagsins sem hafði mótast í kringum lagið. Ýmsar tilgátur voru settar fram, en þær eru svo margar og misjafnar að hér gefst ekki rúm til að ræða þær. Nördar og pólverjar Nú koma hljóðtækninördar til sögunnar, en þeir voru sannfærðir um að lausn ráðgátunnar lægi í því að greina, með hljóðtæknilegum aðferðum, allt um upptöku lagsins. Á hljóðrofsriti (spectrograph) kom í ljós að tóna í kringum 10kHz og 14kHz vantaði alveg í lagið, en auk þess voru tónar í kringum 16kHz og 19kHz spilaðir lágt út allt lagið. Útvarpsstöðvar hafa ákveðna einkennistóna, sem þær bæta við eða eyða út úr lögunum sem þær senda út, og segja þannig útvarpstækjum á hvaða stöð tækið er stillt. Það vill þannig til að NDR fjarlægir 10kHz og 14kHz úr lögum og bætir 16kHz og 19kHz við. Auk þess virtist einhver skruðningur í kringum 50Hz í upptökunni, en slíkt er dæmigert þegar útvarpsstöð spilar lag af segulbandi. Þar með var talið öruggt að lagið var spilað af segulbandi á NDR. Sömuleiðis komust hljóðtækninördarnir að því að hljóðgervillinn (Synthinn) í laginu hlyti af vera af gerðinni Yamaha DX7, sem var fyrst settur á markað snemma árs 1983. Lagið gæti því ekki verið eldra en frá 1983. Vorið 2020 birtist skyndilega fjöldinn allur af pólverjum á Reddit, fullyrtu að lagið væri pólskt og að það hafi verið mjög vinsælt í Póllandi á sínum tíma. Þrátt fyrir það gat enginn pólverjanna borið kennsl á lagið. Auk þess hafi NDR aldrei sent út í Póllandi. Það þyrfti þó ekki að þýða að þeir hefðu rangt fyrir sér, því Paul Baskerville ferðaðist mikið um Evrópu og tók með sér ferska tónlist héðan og þaðan og spilaði í þættinum sínum. Pólverjarnir hurfu svo jafnskjótt og þeir höfðu birst. Það eitt og sér var dularfullt. Listamenn Annað sem gerðist vorið 2020, var að notandinn Dakkeeto hafði grafið upp vinsældarlista frá áttunni úr tónlistartímaritinu Eurotipsheet og grafið sig í gegnum þá. Hann komst að því að af tíu lögum á upprunalegu kasettunni hans Dariusar voru átta á topp-10 lista í Þýskalandi í sömu vikunni. Það var síðasta vika ágúst 1984. Það hlyti að vera vikan sem lagið var flutt í útvarpi. Paul Baskerville benti á að þá vikuna hafi verið „Nýbylgjusafnplötuvika“ í þættinum hans, þar sem hann spilaði aðallega safnplötur með nýbylgjupoppi sem hann hafði fundið á fyrrnefndum ferðalögum um Evrópu. Kannski höfðu dularfullu pólverjarnir rétt fyrir sér. Var lagið alls ekki þýskt? Í öllu falli hlyti lagið að hafa verið spilað upp úr miðju ári 1984. Í júlí 2020 fengu netverjar síðan aðgang að spilunarlistum skjalavarðanna á NDR frá 1984. Þar mátti finna öll lög sem voru spiluð á NDR það ár – mörgþúsund talsins. Fljótt kom í ljós að dularfulla lagið var ekki eina lagið sem hafði fallið í gleymskunnar dá. Á listunum voru nefnilega mörg lög sem fáir könnuðust við og hvergi var að finna á tónlistarveitum eða höfundarréttarskrám. Búið var til risasórt skjal á Google Drive þar sem fólk gat boðið sig fram til þess að bera kennsl á öll þessi lög. Reynt var að finna upptökur af lögunum, en ef það tókst ekki var reynt að hafa samband við umrædda listamenn. Á rúmu ári tókst með þessum hætti að bera kennsl á öll lögin á listanum. En ekkert þeirra reyndist vera dularfulla lagið. Nú kom svartnættið, því sú fullvissa að lagið hafi verið spilað á NDR árið 1984 var úr sögunni. Það versnaði síðan þegar netverjar fengu aðgang að spilunarlistum frá 1983, gerðu það sama við þá, en fundu enn ekki dularfulla lagið. Nokkuð sem margir tóku eftir var að nær öll lögin á listunum, jafnvel þau allra óþekktustu, var að finna á YouTube. Oft voru þau á rásum sem virtust eingöngu geyma gömul óþekkt lög. Hver var á bakvið slíkar rásir? Og var dularfulla lagið að finna einhvers staðar á þeim? Nú var farið í að kemba slíkar YouTube rásir. Lagið fannst hvergi. Furðulegt háttalag styttu sem hreyfist Sumarið 2021 datt einhverjum í hug að gríska nýbylgjuhljómsveitin Statues in Motion gæti verið á bakvið lagið. Söngvari hennar var með svipaða rödd og söngvari dularfulla lagsins, og hún var virk á svipuðum tíma og um ræddi. Hinn brasilíski Gabriel Vieira hafði samband við útgáfufélag sveitarinnar og gítarleikara hennar, Billy Knight. Hvorugt sagðist kannast við lagið. En það bar til um þessar mundir að fjölmiðlar um allan heim voru farnir að sýna leitinni að laginu áhuga. Líklega var það þess vegna sem Billy Knight hafði aftur samband við Gabriel og sagðist nú skyndilega muna að hann hafi samið og tekið upp lagið árið 1982. Þetta þótti ekki sannfærandi, því hljóðgervillinn í laginu kom ekki á markað fyrr en 1983 og í þá daga var ekki hægt að nota tölvur til að líkja eftir hljóðgervlum, eins og við getum í dag. Gítarleikurinn á plötunni þótti ólíkur gítarleiknum í dularfulla laginu, og í dularfulla laginu voru notaðar alvöru trommur, en Statues in motion notaði trommuheila. Auk þess var stíllinn allt annar. Frásögn Billys breyttist einnig dag frá degi. Dularfulla lagið var fyrst nafnlaust, en síðan hafði það nafn, en varð svo aftur nafnlaust. Dularfulla lagið var eina lagið sem gleymdist að setja á breiðskífu, eða nei reyndar, það var eitt af fimm lögum sem var ákveðið að hafa ekki með… og þar fram eftir götum. Billy Knight var augljóslega að ljúga til að fá athygli, enda var hann á þeim tíma að reyna við endurkomu í tónlistarbransann. Þegar gengið var á hann með staðreyndir málsins fór hann í þvílíka vörn að hann lagðist í stórfellda ófrægingarherferð gegn Gabriel Vieira, með persónuárásum og svívirðingum, sem enn sér ekki fyrir endann á, jafnvel þótt nú sé búið að leysa ráðgátuna. Þótt Statues in Motion sé augljóslega ekki bandið á bakvið dularfulla lagið varð þessi atburðarás til þess að ný ráðgáta kom í ljós. Grunur lék á að söngvari hljómsveitarinnar, Alvin Dean, hefði samið lagið með annarri hljómsveit. Þegar reynt var að hafa samband við hann fannst hann hvergi. Enginn af fyrrum hljómsveitarmeðlimum hans vissi hvar hann var niður kominn og ekkert heimilisfang fannst skráð á hann í heimalandi hans, Grikklandi. Fjölskylda hans hafði einnig misst samband við hann fyrir mörgum árum. Svo virtist sem Alvin Dean hefði gufað upp fyrir löngu síðan en enginn hafi veitt því gaum. Í Grikklandi er nú litið á þetta sem mannhvarfsmál og talinn skandall að hvarf hans hafi verið ótilkynnt í mörg ár. Og ekki hjálpaði það heldur við leitina að dularfulla laginu. Hörfest Víkjum nú aftur að leitinni. Netverjarnir höfðu lengi verið meðvitaðir um tónlistarhátíðina Hörfest, sem var haldin af NDR í Hamburg flest árin í áttunni og var vel sótt af ungu fólki. Á hátíðinni fór fram ströng útsláttarkeppni þar sem teymi þjóðþekktra tónlistarmanna völdu bestu ungu tónlistamennina til að koma fram í útvarpi. Vitanlega var búið að kemba öll bönd sem komu fram á hátíðinni en ekkert þeirra reyndist eiga dularfulla lagið. Reyndar tókst aldrei að finna lista yfir þær hljómsveitir sem tóku þátt árið 1984 – var hljómsveitin dularfulla kannski þeirra á meðal? Eitt band hafði þó vakið athygli fyrir svipaðan stíl: Die Phrät-Band tók þátt í Hörfest 1982 og forsprakki þess, Michael Hädrich, þótti semja frumlega nýbylgjutónlist. Dularfulla lagið var þó ekki á neinum upptökum frá Die Phrät-Band og ekki tókst að ná sambandi við meðlimi sveitarinnar að þessu sinni, svo athyglin beindist fljótt annað. Loks kom einhver auga á það að á spilunarlistunum frá NDR voru mörg lög skráð þann 17. september 1984 sem „Amateurband“ án frekari nafna eða titla. Hörfest 1984 hafði farið fram 14. og 15. september það ár, og vitað var að bestu böndin af hátíðinni áttu að fá spilun í útvarpi að launum. Voru amatörböndin frá 17. september sigurvegararnir á Hörfest? Var dularfulla lagið meðal þeirra? Hljóðtækninördarnir fyrrnefndu höfðu einnig bent á að líklega væri upptakan gerð á tónleikum. Þetta passaði svo vel að þetta hlaut að leiða að lausn gátunnar. Því miður var engar upplýsingar að finna um hljómsveitirnar á Hörfest 1984, eins og fyrr segir. NDR áætlaði að um 500 amatörbönd hefðu sent lög inn í keppnina árið 1984. Nál í heystakki. Flest þeirra voru skammlífar hljómsveitir, skólahljómsveitir og þess háttar, og því gat vel verið að ef dularfulla lagið tilheyrði einni þeirra, væru sjálfir tónlistarmennirnir löngu búnir að gleyma laginu. Svo gerðist það vorið 2024 að Reddit-notandi nokkur rakst fyrir tilviljun á blaðaúrklippu í fórum aldraðs ættingja, þar sem fjallað var um Hörfest ‘84. Þar var fjallað um hljómsveitina Twilight, og innan tíðar tókst að hafa upp á meðlimum sveitarinnar. Þeir könnuðust ekki við lagið en áttu þó ýmsar upplýsingar um Hörfest ’84. Meðal annars gátu þeir staðfest að bestu böndin á hátíðinni fengu spilun á NDR í „Amateurband“ þætti þann 17. september. Bingó. Tenging milli Hörfest og 17. september var staðfest. Nú fóru hlutir að gerast hratt. Nú var brugðið á það ráð að athuga hvort borgarskjalasafnið í Hamburg ætti gögn um Hörfest ’84. Vissulega átti safnið skjöl um hátíðina – alls um 4000 blaðsíður og það rukkaði 60 evrusent fyrir aðgang að hverri síðu. Netverjar punguðu glaðir út peningnum og byrjuðu að kemba gögnin. Í gögnunum fundust 900 hljómsveitarnöfn og hafist var handa við að hafa uppi á þeim öllum. Ein hljómsveitin vakti þó sérstaka athygli, hljómsveitin FEX frá Kiel. Ástæðan fyrir því að hún vakti athygli var sú að áðurnefndur forsprakki Die Phrät-Band, Michael Hädrich, var nefndur sem hljómborðsleikari FEX. Gat það verið tilviljun? Einn netverjinn, hollensk kona að nafni Marijn, mundi eftir að hafa séð nafnið Michael Hädrich í gögnum um Hörfest ’82 og reyndi því strax að ná sambandi við hann, þann 4. nóvember síðastliðinn. Í þetta sinn tókst það. Besti mögulegi endirinn Michael svaraði um hæl og sagðist vera höfundur lagsins. Lagið heitir Subways of your Mind og hljómsveitin var vissulega FEX. Þessu til staðfestingar gat Michael sýnt upprunalega Yamaha DX7 hljóðgervilinn með raðnúmeri sem staðfesti að hann var keyptur 1983, upprunalegar segulbandsupptökur af laginu, gamalt vélritað blað með nokkrum uppköstum af texta lagsins, samning sem hljómsveitin undirritaði við NDR um spilun lagsins og ýmislegt fleira. Hann sendi Marijn auk þess nokkrar útgáfur af laginu á kasettum; eina stúdíóútgáfu, eina tónleikaútgáfu og eina demo-útgáfu. Ekki nóg með það, heldur gaf hann henni þrjú önnur lög í kaupbæti, sem hljómsveitin hafði hljóðritað en höfðu aldrei komið út. Útgáfan, sem Darius tók upp af NDR1 þann 17. september 1984, var tónleikaútgáfan. Þetta kom svo flatt upp á sjötugan manninn að hann var sem í móki næstu daga, en hann ákvað þó að heyra í gömlu vinum sínum úr FEX. Þeir höfðu ekki talast við í um 30 ár og það tókst ekki að hafa uppi á trommaranum, en restin af hljómsveitinni ákvað að hittast og taka upp sérstakan þátt á NDR þar sem þeir sögðu sögu hljómsveitarinnar og fluttu nýja, órafmagnaða útgáfu af laginu. Daginn sem þátturinn var sýndur kom trommarinn í leitirnar. Hann var að horfa á sjónvarpið og sá sér til mikillar furðu gömlu vini sína sem hann hafði misst samband við, spilandi gamla lagið sem þeir höfðu samið. Hann átti enn gamla trommusettið, stúdíónótur fyrir lagið og allan varning frá Hörfest ’84. Vitaskuld setti hann sig í samband við gömlu vinina og undir eins var ákveðið að bandið skyldi endurstofnað. Þeir stefna nú á að gera nýja upptöku af Subways of your Mind, auk þess að taka upp fullt af nýju efni og gera það allt aðgengilegt á Spotify á nýju ári. Þetta hefði ekki getað endað betur. Það hefði hæglega getað verið að meðlimir hljómsveitarinnar væru allir dánir eða heilsuveilir, allir óáhugasamir um lagið, búnir að gleyma laginu, eða gætu ekki sannað að þeir væru dularfulla bandið… en nei, þeir eru sprelllifandi, hraustir, skemmtilegir, með öll gögn um lagið á hreinu og ætla að gefa okkur nýtt efni. Er hægt að biðja um meira? Það furðulega er hversu langan tíma þetta tók. Michael Händrich er nefnilega mjög virkur á netinu og tekur sjálfur þátt í leit og skráningu 80‘s tónlistar, og er auk þess með stóra tónlistarrás á YouTube. Einhvern veginn fór þetta einfaldlega framhjá honum. Auk þess var dóttir Michaels virk í leit og skráningu gamallar tónlistar, en þetta hafði líka farið framhjá henni. Allir meðlimir hljómsveitarinnar eru þar að auki áskrifendur að Rolling Stone Magazine, sem hafði fjallað ítarlega um leitina – en greinin fór einfaldlega framhjá þeim öllum. Rúsínan í pylsuendanum er sú að kallarnir í FEX hlusta reglulega á þátt Paul Baskervilles, Nachtclub – en fyrir tilviljun höfðu þeir allir misst af þættinum þar sem hann spilaði dularfulla lagið. Að lokum Subways of your Mind er ekki eina lagið sem hefur fallið í gleymskunnar dá. Hvað með öll hin 900 lögin sem heyrðust á Hörfest ’84? Þekkir einhver þau? Hvað með alla þá menningu sem er sköpuð í dag en verður gleymd á morgun? Hvers virði er menningarlegt minni? Þurfum við að muna eftir allri list eða má list vera tímabundin og hverfa þegar hennar tími líður? Subways of your Mind er frábært lag sem hefði getað verið frægt, en tilviljun réði því að svo varð ekki. Hvað með öll hin tónlistarfræin sem aldrei urðu að blómum? Hverju erum við að missa af með því að einblína á það vinsæla en gleyma því sem er óvinsælla? Hversu auðvelt er að missa af risastórum menningarlegum fyrirbærum á internetinu, þótt þau séu beint fyrir framan mann, á bakvið þunna dulu snertiskjásins? Við búum í sítengdum, snjallvæddum heimi, en hversu ótengd erum við í raun fyrst að allar okkar tengingar gátu ekki tengt FEX við þeirra eigið lag fljótar en raun bar vitni? Höfundur er grúskari. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Tónlist Mest lesið 40 ára ráðgáta leyst Arnór Bjarki Svarfdal Skoðun Stjórnlaust útlendingahatur Útlendingastofnunar Jón Frímann Jónsson Skoðun Kvenréttindi varða okkur öll - óháð kyni Rósa S. Sigurðardóttir Skoðun Innviðauppbygging og viðhald í Sveitarfélaginu Árborg Álfheiður Eymarsdóttir,Sveinn Ægir Birgisson Skoðun Jólin og börnin okkar: Að leggja áherslu á samveru frekar en gjafir Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun Íslenskur útgerðarmaður, evrópsk verkakona Sigurgeir B. Kristgeirsson Skoðun Maður á sviði: Narsissisti í nánu sambandi Hrafnhildur Sigmarsdóttir Skoðun Sagnaarfur Biblíunnar – Móses og Martin Luther King Sigurvin Lárus Jónsson Skoðun Bílastæði eru hættulegri en þú heldur Hrefna Sigurjónsdóttir Skoðun Sýrland í stuttu máli Omran Kassoumeh Skoðun Skoðun Skoðun Sagnaarfur Biblíunnar – Móses og Martin Luther King Sigurvin Lárus Jónsson skrifar Skoðun Innviðauppbygging og viðhald í Sveitarfélaginu Árborg Álfheiður Eymarsdóttir,Sveinn Ægir Birgisson skrifar Skoðun Jólin og börnin okkar: Að leggja áherslu á samveru frekar en gjafir Valgerður Bára Bárðardóttir skrifar Skoðun Stjórnlaust útlendingahatur Útlendingastofnunar Jón Frímann Jónsson skrifar Skoðun 40 ára ráðgáta leyst Arnór Bjarki Svarfdal skrifar Skoðun Kvenréttindi varða okkur öll - óháð kyni Rósa S. Sigurðardóttir skrifar Skoðun Siðferði og ábyrgð – lykillinn að trausti Sigvaldi Einarsson skrifar Skoðun Áhrifaleysið – trúa menn því virkilega? Andrés Pétursson skrifar Skoðun Íslenskur útgerðarmaður, evrópsk verkakona Sigurgeir B. Kristgeirsson skrifar Skoðun Embættismenn og stjórnmálamenn 30 ára Pétur Berg Matthíasson skrifar Skoðun Sýrland í stuttu máli Omran Kassoumeh skrifar Skoðun Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis? Ólafur Ágúst Hraundal skrifar Skoðun Eftirlifendur fá friðarverðlaun Andrés Ingi Jónsson skrifar Skoðun Við getum stöðvað kynbundið ofbeldi Hildur Guðbjörnsdóttir skrifar Skoðun Dýravelferð dýranna Árni Alfreðsson skrifar Skoðun Réttur kvenna til lífs Ólöf Embla Eyjólfsdóttir skrifar Skoðun Bílastæði eru hættulegri en þú heldur Hrefna Sigurjónsdóttir skrifar Skoðun Fimmtíu ár frá Kvennafrídeginum árið 2025 Matthildur Björnsdóttir skrifar Skoðun Framtíðarsýn skóla og frístundastarfs í Lauganes- og Langholtshverfi Árelía Eydís Guðmundsdóttir skrifar Skoðun Getur rafmagnið lært af símanum? Sigurður Jóhannesson skrifar Skoðun „Fé fylgi sjúklingi – ný útfærsla“ Teitur Guðmundsson skrifar Skoðun Aðgengi og lífsgæði eldri borgara í stafrænni framtíð: Hvað getum við gert betur? Hildur María Friðriksdóttir skrifar Skoðun Loftslagsmál eru orkumál Nótt Thorberg skrifar Skoðun Lánakvótar opna á nýja möguleika í hagstjórn Hallgrímur Óskarsson skrifar Skoðun Tímaskekkja í velferðarríki Stefán Þorri Helgason skrifar Skoðun Ahimsa: Siðferði kjöts og innflytjendamála Rajan Parrikar skrifar Skoðun Valkyrjustjórnin skyldi íslensk flugfélög til gæludýraflutninga í farþegaflugvélum Árni Stefán Árnason skrifar Skoðun Stigmögnun ofbeldis í nánum samböndum Kristín Snorradóttir skrifar Skoðun Brottvísanir frá sjónarhorni íslenskukennara Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifar Skoðun Mun ný ríkisstjórn Íslands endurskoða hvalveiðileyfið? Elissa Phillips skrifar Sjá meira
Í síðasta mánuði leystist ein stærsta ráðgáta internetsins. Ráðgátan er 40 ára gömul, en vinna að lausn hennar hófst af alvöru fyrir 17 árum síðan. Þann 4. nóvember 2024 leystist svo loks ráðgátan um „dularfyllsta lag internetsins“. Ekki byrjunin Við skulum byrja, ekki á byrjuninni, heldur árið 2007. Á spjallborðinu Spirit of Radio var ýmislegt rætt um útvarp; tónlist, tækni og sögu þess. Notandi sem gekk undir nafninu bluuue setti inn á spjallborðið 80 sekúndna hljóðbrot úr lagi sem hann hafði heyrt í útvarpinu einhvern tímann snemma í áttunni og vildi bera kennsl á það. Lagið var hresst en ögn drungalegt og rokkskotið nýbylgjupopplag, með einkennandi hljóðgervli, seiðandi baritónsöngvara og kom manni strax í stuð. Í raun týpískt 80‘s lag og hljómaði eins og það hefði getað verið mjög vinsælt lag á sínum tíma. Það hlyti nú að vera lítið mál að komast að því hvaða lag þetta væri. En allt kom fyrir ekki. Enginn þekkti lagið. Þetta var óvenjulegt, því það var nokkuð algengt að „óþekktum“ lögum væri hlaðið upp á Spirit of Radio, en samfélaginu þar tókst alltaf að bera kennsl á lögin, öll nema þetta. Laginu var fljótlega dreift á önnur spjallborð þess tíma, t.d. Usenet og WhatZatSong og internetlýðurinn tók ákaft að leita að uppruna lagsins, en án árangurs. Lagið fékk fljótlega heitið „Like the wind“ eftir fyrstu línunni í lagatextanum (sem var þó ansi óskýr). Ráðgátan heltók marga, en sérstaklega einn ungan brasilískan hljóðtæknimann að nafni Gabriel Vieira. Í kringum 2010 höfðu flestir gefist upp á leitinni nema Gabriel – hann hélt áfram að leita og fékk kunningja sinn Nico til liðs við sig, en sá rak antík-vínylsöluna Dead Wax Records og var sérfræðingur í 80‘s tónlist. Saman rak þá hvorki lönd né strönd þrátt fyrir þrotlausa, áralanga leit. Á sama tíma virtist upprunalegi leitandinn, bluuue, hafa horfið af internetinu. Loks fór eitthvað að gerast vorið 2019, þegar Gabriel Vieira datt í hug að fylla Reddit af fyrirpurnum um lagið (Reddit er spjallborð sem skiptist í þúsundir undirspjallborða um sértæk áhugamál, svokölluð subreddit). Hann fór inn á öll subreddit sem honum datt í hug og spurði út í lagið, en stofnaði síðan sérstakt subreddit: „The mysterious song“ til þess að sinna leitinni. Þetta blés lífi í áhuga fólks, og innan fárra vikna voru yfir 60 þúsund virkir notendur á subredditinu. Baskerville-hundurinn fer til Þýskalands Upp úr þessu náðu netverjarnir fljótt að komast að því að bluuue hafði fyrir löngu síðan verið virkur á þýskum spjallborðum um tónlist. Þar eð Gabriel Vieira talaði ekki þýsku hafði hann aldrei fattað þetta. Í ljós kom að bluuue hét Anton, hann var frá Bremen og bróðir hans hafði tekið lagið upp af útvarpi í Norður-Þýskalandi snemma í áttunni. Þetta, auk þess að hreimur söngvarans hljómaði evrópskur, olli því að loksins var hægt að þrengja leitina. Lagið hlyti að vera þýskt eða a.m.k. að hafa verið vinsælt í Þýskalandi. Ekkert gekk þó að ná sambandi við Anton eða bluuue. Á gömlu og gleymdu þýsku spjallborði hafði bluuue skrifað að lagið hafi líklega verið tekið upp af útvarpsstöðvunum Bremen 4, NDR1 eða NDR2, og að þátturinn „Musik für junge Leute“ á NDR1 kæmi sterklega til greina. NDR eða Norddeutsche Rundfunk er nokkurs konar RÚV fyrir Norður-Þýskaland. Fljótlega var haft samband við NDR og þar var bent á að breti nokkur, Paul Baskerville, hafi stýrt Musik für junge Leute á sínum tíma og stýrði nú á dögum hinum nostalgíska útvarpsþætti Nachtclub á NDR, orðinn gamall maður. Það er eitthvað skemmtilegt við það að hann heiti sama nafni og hundurinn í ráðgátu Sherlock Holmes… Í júlí 2019 byrjuðu netverjar að hundelta Paul Baskerville, sem þá var í fríi í útlöndum. Hann fékk þúsundir tölvupósta og símhringinga, kannaðist ekki við lagið en lofaði að spila þaÍð í þættinum sínum þegar hann kæmi heim úr fríi. Margar gamlar þýskar 80‘s kempur hlustuðu á þáttinn hans og þær hlytu að geta hjálpað. Áður en Baskerville kom heim úr fríinu dúkkaði upp notandi á reddit, sem hét Johnny og hafði verið virkur í leitinni að laginu árin 2007 til 2010. Hann hafði árið 2009 spjallað við hinn dularfulla Anton á gamla spjallborðinu á Usenet, sem nú var búið að eyða. Þá hafði Anton sent honum lagið í fullri lengd og betri gæðum, og Johnny hafði geymt skránna allan þennan tíma. Hér var kominn fram mikill fjársjóður. Þegar Paul Baskerville kom loks úr fríi gat hann því spilað lagið í fullri lengd í útvarpsþættinum sínum, en viðbrögðin voru því miður engin. Enginn hlustandi gaf sig fram. Netverjar héldu áfram að áreita Paul Baskerville, sem fannst þó fátt um þetta. Hann fullyrti að þetta væri líklega eitthvað demo-tape frá hljómsveit sem hefði aldrei orðið vinsæl, en í þættinum hans á þeim tíma spilaði hann hundruði slíkra laga sem ungir og upprennandi tónlistarmenn sendu inn og féllu jafnóðum í gleymskunnar dá. Paul er sérfræðingur um þýska nýbylgju- og pönktónlist og sagðist myndu skoða plöturnar sínar, en að það myndi taka tíma því hann ætti yfir 10.000 vínylplötur úr áttunni. Hann benti einnig á að tveir aðrir menn hefðu séð um þáttinn með honum, en það stoðaði lítið, því þeir voru Stefan Kuhne, sem var látinn, og Gert Timmermann, sem neitaði að svara tölvupóstum og símtölum. Baskerville setti sig líka í samband við alla sem hann vissi að ráku plötubúðir og tónleikastaði í Norður-Þýskalandi í áttunni, en enginn þeirra kannaðist við lagið. Hann benti einnig skjalavörðum NDR á málið og þeir hófust handa við að grafa í öllum skjölum og upptökum NDR. Sú leit yrði þó löng, því þjóðverjar eru jú þekktir fyrir ítarleg skjalasöfn og skriffinnsku. Verkefnið heltók skjalaverðina og þeir skiptust á að eyða löngum kvöldum í vinnunni, þrælandi launalaust yfir 40 ára gömlum spilunarlistum og upptökum – algjörlega án árangurs. Á meðan héldu netverjar áfram að gera sitt. Laginu var hlaðið upp á YouTube og Spotify í von um að plötufyrirtæki, sem stunda alla jafna óvægna hagsmunavörslu, myndu fara fram á að lagið yrði tekið niður. Ef það gerðist kæmi strax í ljós hver ætti útgáfuréttinn. Það gerðist þó aldrei. Netverjarnir höfðu einnig samband við höfundarréttarsamtök um allan heim, en ekkert þeirra gat borið kennsl á höfundinn. Ein slík samtök eru GEMA, en þau eru þýsk hliðstæða hins íslenska STEF. Þau eru þekkt fyrir að halda stífar skrár yfir öll lög sem spiluð eru í útvarpi í Þýskalandi og ganga hart fram við vernd höfundarréttar. Þar á bæ gat þó enginn fundið upplýsingar um lagið. Gervigreindir og greiningarforrit eins og Shazam og Soundhound skiluðu heldur engum niðurstöðum. Nokkrar 80‘s hljómsveitir lágu undir grun fyrir að vera með söngvara með svipaða rödd, svipuð gítarriff og fleira, t.d. skoska sveitin Boards of Canada, en allar hljómsveitir sem haft var samband við harðneituðu að eiga lagið. Netverjar héldu því áfram að áreita Paul Baskerville – hann hlyti að vera lykillinn að ráðgátunni. Svo mikið varð áreitið að sjónvarpsstöð NDR gerði þátt um lagið þar sem Paul baðst vægðar og lýsti því yfir að honum þætti lagið ekkert merkilegt. Anton fundinn – eða ekki? Þessi þáttur skipti sköpum, því þannig vildi til að bróðir hins dularfulla Antons sá hann í sjónvarpinu. Bróðirinn hét Darius og var sá sem hafði upphaflega tekið lagið upp á kasettu. Hann hélt því einnig fram að Anton héti í raun ekki Anton, heldur Lydia, og væri systir hans. Það kom þeim systkinum í opna skjöldu að þessi sakleysislega forvitni þeirra hafi orðið að risastóru samfélagi á internetinu. Netverjar trúðu þeim tæplega, en þeim Lydiu og Dariusi tókst þó með ýmsum leiðum að sanna að þau væru á bakvið hinn dularfulla Anton eða bluuue á öllum gömlu spjallþráðunum. Nú varð saga lagsins skýrari. Einhvern tímann snemma í áttunni, líklega á bilinu 1982-1984 kom Darius heim úr skólanum og kveikti á útvarpinu. Eins og flesta daga sinnti hann sínu helsta áhugamáli þetta örlagaríka eftirmiðdegi: að taka up lög úr útvarpinu á kasettur og búa til mix-tape. Darius hélt ítarlega skrá yfir öll lög sem hann tók upp í möppum, þar sem hann safnaði kasettunum sínum. Þennan dag tók hann upp lag sem átti seinna eftir að vera þekkt sem dularfyllsta lag internetsins. Honum misfórst að skrá niður nafn lagsins og því er lagið einfaldlega skráð sem „? – Blind the wind“ í möppunum hans góðu. „Blind the wind“ var hans túlkun á óskýrum opnunarlínum lagsins, en nafn lagsins eða flytjandans þekkti hann ekki. Lagið, sem Darius kallaði Blind the Wind, var í raun ekki eina lagið sem var vitlaust skráð í möppurnar. Hann hafði stundað þetta áhugamál daglega í mörg ár, þúsundir laga voru á kasettunum hans og því eðlilega þónokkrar villur í skránni. Það angraði hann. Árið 2004 ákvað því Lydia systir hans að gefa bróður sínum vefsíðu að gjöf. Vefsíðan var nefnd Unknown Pleasures eftir plötu Joy Division, og þar gæti Darius hlaðið inn lögunum sem voru rangt merkt og beðið um aðstoð internetsins við að greina þau rétt. Áður en ár var liðið hafði internetið svarað kallinu og búið var að bera kennsla á öll lögin – nema eitt. Dularfyllsta lagið. Vefsíðunni var fljótlega lokað. Systkinin, sem höfðu verið að leita lagsins í áratugi, urðu nú einhvers konar andlegir leiðtogar internetsamfélagsins sem hafði mótast í kringum lagið. Ýmsar tilgátur voru settar fram, en þær eru svo margar og misjafnar að hér gefst ekki rúm til að ræða þær. Nördar og pólverjar Nú koma hljóðtækninördar til sögunnar, en þeir voru sannfærðir um að lausn ráðgátunnar lægi í því að greina, með hljóðtæknilegum aðferðum, allt um upptöku lagsins. Á hljóðrofsriti (spectrograph) kom í ljós að tóna í kringum 10kHz og 14kHz vantaði alveg í lagið, en auk þess voru tónar í kringum 16kHz og 19kHz spilaðir lágt út allt lagið. Útvarpsstöðvar hafa ákveðna einkennistóna, sem þær bæta við eða eyða út úr lögunum sem þær senda út, og segja þannig útvarpstækjum á hvaða stöð tækið er stillt. Það vill þannig til að NDR fjarlægir 10kHz og 14kHz úr lögum og bætir 16kHz og 19kHz við. Auk þess virtist einhver skruðningur í kringum 50Hz í upptökunni, en slíkt er dæmigert þegar útvarpsstöð spilar lag af segulbandi. Þar með var talið öruggt að lagið var spilað af segulbandi á NDR. Sömuleiðis komust hljóðtækninördarnir að því að hljóðgervillinn (Synthinn) í laginu hlyti af vera af gerðinni Yamaha DX7, sem var fyrst settur á markað snemma árs 1983. Lagið gæti því ekki verið eldra en frá 1983. Vorið 2020 birtist skyndilega fjöldinn allur af pólverjum á Reddit, fullyrtu að lagið væri pólskt og að það hafi verið mjög vinsælt í Póllandi á sínum tíma. Þrátt fyrir það gat enginn pólverjanna borið kennsl á lagið. Auk þess hafi NDR aldrei sent út í Póllandi. Það þyrfti þó ekki að þýða að þeir hefðu rangt fyrir sér, því Paul Baskerville ferðaðist mikið um Evrópu og tók með sér ferska tónlist héðan og þaðan og spilaði í þættinum sínum. Pólverjarnir hurfu svo jafnskjótt og þeir höfðu birst. Það eitt og sér var dularfullt. Listamenn Annað sem gerðist vorið 2020, var að notandinn Dakkeeto hafði grafið upp vinsældarlista frá áttunni úr tónlistartímaritinu Eurotipsheet og grafið sig í gegnum þá. Hann komst að því að af tíu lögum á upprunalegu kasettunni hans Dariusar voru átta á topp-10 lista í Þýskalandi í sömu vikunni. Það var síðasta vika ágúst 1984. Það hlyti að vera vikan sem lagið var flutt í útvarpi. Paul Baskerville benti á að þá vikuna hafi verið „Nýbylgjusafnplötuvika“ í þættinum hans, þar sem hann spilaði aðallega safnplötur með nýbylgjupoppi sem hann hafði fundið á fyrrnefndum ferðalögum um Evrópu. Kannski höfðu dularfullu pólverjarnir rétt fyrir sér. Var lagið alls ekki þýskt? Í öllu falli hlyti lagið að hafa verið spilað upp úr miðju ári 1984. Í júlí 2020 fengu netverjar síðan aðgang að spilunarlistum skjalavarðanna á NDR frá 1984. Þar mátti finna öll lög sem voru spiluð á NDR það ár – mörgþúsund talsins. Fljótt kom í ljós að dularfulla lagið var ekki eina lagið sem hafði fallið í gleymskunnar dá. Á listunum voru nefnilega mörg lög sem fáir könnuðust við og hvergi var að finna á tónlistarveitum eða höfundarréttarskrám. Búið var til risasórt skjal á Google Drive þar sem fólk gat boðið sig fram til þess að bera kennsl á öll þessi lög. Reynt var að finna upptökur af lögunum, en ef það tókst ekki var reynt að hafa samband við umrædda listamenn. Á rúmu ári tókst með þessum hætti að bera kennsl á öll lögin á listanum. En ekkert þeirra reyndist vera dularfulla lagið. Nú kom svartnættið, því sú fullvissa að lagið hafi verið spilað á NDR árið 1984 var úr sögunni. Það versnaði síðan þegar netverjar fengu aðgang að spilunarlistum frá 1983, gerðu það sama við þá, en fundu enn ekki dularfulla lagið. Nokkuð sem margir tóku eftir var að nær öll lögin á listunum, jafnvel þau allra óþekktustu, var að finna á YouTube. Oft voru þau á rásum sem virtust eingöngu geyma gömul óþekkt lög. Hver var á bakvið slíkar rásir? Og var dularfulla lagið að finna einhvers staðar á þeim? Nú var farið í að kemba slíkar YouTube rásir. Lagið fannst hvergi. Furðulegt háttalag styttu sem hreyfist Sumarið 2021 datt einhverjum í hug að gríska nýbylgjuhljómsveitin Statues in Motion gæti verið á bakvið lagið. Söngvari hennar var með svipaða rödd og söngvari dularfulla lagsins, og hún var virk á svipuðum tíma og um ræddi. Hinn brasilíski Gabriel Vieira hafði samband við útgáfufélag sveitarinnar og gítarleikara hennar, Billy Knight. Hvorugt sagðist kannast við lagið. En það bar til um þessar mundir að fjölmiðlar um allan heim voru farnir að sýna leitinni að laginu áhuga. Líklega var það þess vegna sem Billy Knight hafði aftur samband við Gabriel og sagðist nú skyndilega muna að hann hafi samið og tekið upp lagið árið 1982. Þetta þótti ekki sannfærandi, því hljóðgervillinn í laginu kom ekki á markað fyrr en 1983 og í þá daga var ekki hægt að nota tölvur til að líkja eftir hljóðgervlum, eins og við getum í dag. Gítarleikurinn á plötunni þótti ólíkur gítarleiknum í dularfulla laginu, og í dularfulla laginu voru notaðar alvöru trommur, en Statues in motion notaði trommuheila. Auk þess var stíllinn allt annar. Frásögn Billys breyttist einnig dag frá degi. Dularfulla lagið var fyrst nafnlaust, en síðan hafði það nafn, en varð svo aftur nafnlaust. Dularfulla lagið var eina lagið sem gleymdist að setja á breiðskífu, eða nei reyndar, það var eitt af fimm lögum sem var ákveðið að hafa ekki með… og þar fram eftir götum. Billy Knight var augljóslega að ljúga til að fá athygli, enda var hann á þeim tíma að reyna við endurkomu í tónlistarbransann. Þegar gengið var á hann með staðreyndir málsins fór hann í þvílíka vörn að hann lagðist í stórfellda ófrægingarherferð gegn Gabriel Vieira, með persónuárásum og svívirðingum, sem enn sér ekki fyrir endann á, jafnvel þótt nú sé búið að leysa ráðgátuna. Þótt Statues in Motion sé augljóslega ekki bandið á bakvið dularfulla lagið varð þessi atburðarás til þess að ný ráðgáta kom í ljós. Grunur lék á að söngvari hljómsveitarinnar, Alvin Dean, hefði samið lagið með annarri hljómsveit. Þegar reynt var að hafa samband við hann fannst hann hvergi. Enginn af fyrrum hljómsveitarmeðlimum hans vissi hvar hann var niður kominn og ekkert heimilisfang fannst skráð á hann í heimalandi hans, Grikklandi. Fjölskylda hans hafði einnig misst samband við hann fyrir mörgum árum. Svo virtist sem Alvin Dean hefði gufað upp fyrir löngu síðan en enginn hafi veitt því gaum. Í Grikklandi er nú litið á þetta sem mannhvarfsmál og talinn skandall að hvarf hans hafi verið ótilkynnt í mörg ár. Og ekki hjálpaði það heldur við leitina að dularfulla laginu. Hörfest Víkjum nú aftur að leitinni. Netverjarnir höfðu lengi verið meðvitaðir um tónlistarhátíðina Hörfest, sem var haldin af NDR í Hamburg flest árin í áttunni og var vel sótt af ungu fólki. Á hátíðinni fór fram ströng útsláttarkeppni þar sem teymi þjóðþekktra tónlistarmanna völdu bestu ungu tónlistamennina til að koma fram í útvarpi. Vitanlega var búið að kemba öll bönd sem komu fram á hátíðinni en ekkert þeirra reyndist eiga dularfulla lagið. Reyndar tókst aldrei að finna lista yfir þær hljómsveitir sem tóku þátt árið 1984 – var hljómsveitin dularfulla kannski þeirra á meðal? Eitt band hafði þó vakið athygli fyrir svipaðan stíl: Die Phrät-Band tók þátt í Hörfest 1982 og forsprakki þess, Michael Hädrich, þótti semja frumlega nýbylgjutónlist. Dularfulla lagið var þó ekki á neinum upptökum frá Die Phrät-Band og ekki tókst að ná sambandi við meðlimi sveitarinnar að þessu sinni, svo athyglin beindist fljótt annað. Loks kom einhver auga á það að á spilunarlistunum frá NDR voru mörg lög skráð þann 17. september 1984 sem „Amateurband“ án frekari nafna eða titla. Hörfest 1984 hafði farið fram 14. og 15. september það ár, og vitað var að bestu böndin af hátíðinni áttu að fá spilun í útvarpi að launum. Voru amatörböndin frá 17. september sigurvegararnir á Hörfest? Var dularfulla lagið meðal þeirra? Hljóðtækninördarnir fyrrnefndu höfðu einnig bent á að líklega væri upptakan gerð á tónleikum. Þetta passaði svo vel að þetta hlaut að leiða að lausn gátunnar. Því miður var engar upplýsingar að finna um hljómsveitirnar á Hörfest 1984, eins og fyrr segir. NDR áætlaði að um 500 amatörbönd hefðu sent lög inn í keppnina árið 1984. Nál í heystakki. Flest þeirra voru skammlífar hljómsveitir, skólahljómsveitir og þess háttar, og því gat vel verið að ef dularfulla lagið tilheyrði einni þeirra, væru sjálfir tónlistarmennirnir löngu búnir að gleyma laginu. Svo gerðist það vorið 2024 að Reddit-notandi nokkur rakst fyrir tilviljun á blaðaúrklippu í fórum aldraðs ættingja, þar sem fjallað var um Hörfest ‘84. Þar var fjallað um hljómsveitina Twilight, og innan tíðar tókst að hafa upp á meðlimum sveitarinnar. Þeir könnuðust ekki við lagið en áttu þó ýmsar upplýsingar um Hörfest ’84. Meðal annars gátu þeir staðfest að bestu böndin á hátíðinni fengu spilun á NDR í „Amateurband“ þætti þann 17. september. Bingó. Tenging milli Hörfest og 17. september var staðfest. Nú fóru hlutir að gerast hratt. Nú var brugðið á það ráð að athuga hvort borgarskjalasafnið í Hamburg ætti gögn um Hörfest ’84. Vissulega átti safnið skjöl um hátíðina – alls um 4000 blaðsíður og það rukkaði 60 evrusent fyrir aðgang að hverri síðu. Netverjar punguðu glaðir út peningnum og byrjuðu að kemba gögnin. Í gögnunum fundust 900 hljómsveitarnöfn og hafist var handa við að hafa uppi á þeim öllum. Ein hljómsveitin vakti þó sérstaka athygli, hljómsveitin FEX frá Kiel. Ástæðan fyrir því að hún vakti athygli var sú að áðurnefndur forsprakki Die Phrät-Band, Michael Hädrich, var nefndur sem hljómborðsleikari FEX. Gat það verið tilviljun? Einn netverjinn, hollensk kona að nafni Marijn, mundi eftir að hafa séð nafnið Michael Hädrich í gögnum um Hörfest ’82 og reyndi því strax að ná sambandi við hann, þann 4. nóvember síðastliðinn. Í þetta sinn tókst það. Besti mögulegi endirinn Michael svaraði um hæl og sagðist vera höfundur lagsins. Lagið heitir Subways of your Mind og hljómsveitin var vissulega FEX. Þessu til staðfestingar gat Michael sýnt upprunalega Yamaha DX7 hljóðgervilinn með raðnúmeri sem staðfesti að hann var keyptur 1983, upprunalegar segulbandsupptökur af laginu, gamalt vélritað blað með nokkrum uppköstum af texta lagsins, samning sem hljómsveitin undirritaði við NDR um spilun lagsins og ýmislegt fleira. Hann sendi Marijn auk þess nokkrar útgáfur af laginu á kasettum; eina stúdíóútgáfu, eina tónleikaútgáfu og eina demo-útgáfu. Ekki nóg með það, heldur gaf hann henni þrjú önnur lög í kaupbæti, sem hljómsveitin hafði hljóðritað en höfðu aldrei komið út. Útgáfan, sem Darius tók upp af NDR1 þann 17. september 1984, var tónleikaútgáfan. Þetta kom svo flatt upp á sjötugan manninn að hann var sem í móki næstu daga, en hann ákvað þó að heyra í gömlu vinum sínum úr FEX. Þeir höfðu ekki talast við í um 30 ár og það tókst ekki að hafa uppi á trommaranum, en restin af hljómsveitinni ákvað að hittast og taka upp sérstakan þátt á NDR þar sem þeir sögðu sögu hljómsveitarinnar og fluttu nýja, órafmagnaða útgáfu af laginu. Daginn sem þátturinn var sýndur kom trommarinn í leitirnar. Hann var að horfa á sjónvarpið og sá sér til mikillar furðu gömlu vini sína sem hann hafði misst samband við, spilandi gamla lagið sem þeir höfðu samið. Hann átti enn gamla trommusettið, stúdíónótur fyrir lagið og allan varning frá Hörfest ’84. Vitaskuld setti hann sig í samband við gömlu vinina og undir eins var ákveðið að bandið skyldi endurstofnað. Þeir stefna nú á að gera nýja upptöku af Subways of your Mind, auk þess að taka upp fullt af nýju efni og gera það allt aðgengilegt á Spotify á nýju ári. Þetta hefði ekki getað endað betur. Það hefði hæglega getað verið að meðlimir hljómsveitarinnar væru allir dánir eða heilsuveilir, allir óáhugasamir um lagið, búnir að gleyma laginu, eða gætu ekki sannað að þeir væru dularfulla bandið… en nei, þeir eru sprelllifandi, hraustir, skemmtilegir, með öll gögn um lagið á hreinu og ætla að gefa okkur nýtt efni. Er hægt að biðja um meira? Það furðulega er hversu langan tíma þetta tók. Michael Händrich er nefnilega mjög virkur á netinu og tekur sjálfur þátt í leit og skráningu 80‘s tónlistar, og er auk þess með stóra tónlistarrás á YouTube. Einhvern veginn fór þetta einfaldlega framhjá honum. Auk þess var dóttir Michaels virk í leit og skráningu gamallar tónlistar, en þetta hafði líka farið framhjá henni. Allir meðlimir hljómsveitarinnar eru þar að auki áskrifendur að Rolling Stone Magazine, sem hafði fjallað ítarlega um leitina – en greinin fór einfaldlega framhjá þeim öllum. Rúsínan í pylsuendanum er sú að kallarnir í FEX hlusta reglulega á þátt Paul Baskervilles, Nachtclub – en fyrir tilviljun höfðu þeir allir misst af þættinum þar sem hann spilaði dularfulla lagið. Að lokum Subways of your Mind er ekki eina lagið sem hefur fallið í gleymskunnar dá. Hvað með öll hin 900 lögin sem heyrðust á Hörfest ’84? Þekkir einhver þau? Hvað með alla þá menningu sem er sköpuð í dag en verður gleymd á morgun? Hvers virði er menningarlegt minni? Þurfum við að muna eftir allri list eða má list vera tímabundin og hverfa þegar hennar tími líður? Subways of your Mind er frábært lag sem hefði getað verið frægt, en tilviljun réði því að svo varð ekki. Hvað með öll hin tónlistarfræin sem aldrei urðu að blómum? Hverju erum við að missa af með því að einblína á það vinsæla en gleyma því sem er óvinsælla? Hversu auðvelt er að missa af risastórum menningarlegum fyrirbærum á internetinu, þótt þau séu beint fyrir framan mann, á bakvið þunna dulu snertiskjásins? Við búum í sítengdum, snjallvæddum heimi, en hversu ótengd erum við í raun fyrst að allar okkar tengingar gátu ekki tengt FEX við þeirra eigið lag fljótar en raun bar vitni? Höfundur er grúskari.
Innviðauppbygging og viðhald í Sveitarfélaginu Árborg Álfheiður Eymarsdóttir,Sveinn Ægir Birgisson Skoðun
Jólin og börnin okkar: Að leggja áherslu á samveru frekar en gjafir Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun
Skoðun Innviðauppbygging og viðhald í Sveitarfélaginu Árborg Álfheiður Eymarsdóttir,Sveinn Ægir Birgisson skrifar
Skoðun Jólin og börnin okkar: Að leggja áherslu á samveru frekar en gjafir Valgerður Bára Bárðardóttir skrifar
Skoðun Framtíðarsýn skóla og frístundastarfs í Lauganes- og Langholtshverfi Árelía Eydís Guðmundsdóttir skrifar
Skoðun Aðgengi og lífsgæði eldri borgara í stafrænni framtíð: Hvað getum við gert betur? Hildur María Friðriksdóttir skrifar
Skoðun Valkyrjustjórnin skyldi íslensk flugfélög til gæludýraflutninga í farþegaflugvélum Árni Stefán Árnason skrifar
Innviðauppbygging og viðhald í Sveitarfélaginu Árborg Álfheiður Eymarsdóttir,Sveinn Ægir Birgisson Skoðun
Jólin og börnin okkar: Að leggja áherslu á samveru frekar en gjafir Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun