Í yfirlýsingu Umboðsmann, sem ber yfirskriftina, Réttindi barna og verkföll kennara, segir að að óbreyttu muni verkföll kennara hefjast að nýju 1. febrúar. Boðuð hafi verið ótímabundin verkföll í fjórtán leikskólum og tímabundin verkföll í sjö grunnskólum.
Þá megi einnig reikna með að verkföll verði í framhaldsskólum og tónlistarskólum, en upplýsingar um fyrirkomulag þeirra verkfalla liggja ekki fyrir.
Börn eigi stjórnarskrárvarinn rétt til menntunar
„Það er sérstaklega þungbært að verkfallsaðgerðir komi aftur til með að bitna á börnum í þeim fjórum leikskólum sem voru í verkfalli frá 29. október til 22. nóvember. Þá hefur umboðsmaður barna miklar áhyggjur af börnum sem eru í viðkvæmri stöðu m.a. fötluðum börnum og börnum sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður.“
Fyrir sum börn séu leikskólar og grunnskólar griðastaðir sem veiti öryggi sem þau njóta ekki annars staðar. Þá verði ekki litið fram hjá því að þó verkfallsrétturinn sé óumdeildur séu börn skólaskyld og þau eigi stjórnarskrárvarinn rétt til menntunar og fræðslu.
Huga verði sérstaklega að börnum í viðkvæmri stöðu
Það sé mikilvægt að hugað verði sérstaklega að stöðu fatlaðra barna og að komið verði í veg fyrir að þessi viðkvæmi hópur barna verði fyrir þjónusturofi. Umboðsmaður barna taki undir ályktun Umhyggju, Þroskahjálpar, Einhverfusamtakanna, Sjónarhóls og ÖBÍ frá 28. janúar varðandi stöðu fatlaðra barna í fyrirhuguðum verkfallsaðgerðum.
„Það er grundvallarhagsmunamál fyrir öll börn að deiluaðilar leiti allra leiða við að ná sáttum og að samningar náist sem tryggja stöðugleika í skólakerfinu.“