Skoðun

Magnús Karl er besti kosturinn

Magnús Tumi Guðmundsson, Sigrún Helga Lund, Jón Gunnar Bernburg og Helga Zoega skrifa

Eftir rúma viku verður gengið til rektorskosninga í Háskóla Íslands. Í kjöri eru nokkrir einstaklingar sem allir hafa verið metnir hæfir til þess að gegna embættinu. Hæfismat samanstendur af nokkrum ólíkum þáttum en vísast eru matsþættir bæði ólíkir og sumir þeirra eru mikilvægari en aðrir. Við teljum þessa þrjá þætti skipta mestu máli við val á rektor:

  • Í fyrsta lagi skilning á og reynslu af stjórnun í flóknu umhverfi skóla- og rannsóknastarfs. Það er erfitt að sjá fyrir sér að rektor sem hefur ekki þennan skilning í ríkum mæli sé líklegur til stórræða.
  • Í öðru lagi þarf rektor að hafa góða yfirsýn yfir vísindastarf – ekki aðeins á eigin sviði, heldur einnig geta áttað sig á styrkleikum og þörfum annarra fræðigreina. Þetta krefst mikillar reynslu af kennslu og rannsóknum – og sú reynsla þarf að vera alþjóðleg jafnt sem innlend.
  • Í þriðja lagi er algjört lykilatriði að rektor sé baráttumanneskja, tilbúinn til að beita sér gagnvart stjórnmálaöflum og ríkisvaldinu af fullum krafti. Við vitum af reynslunni að stjórnvöld geta gengið hart fram gegn Háskóla Íslands án skilnings á kjölfestuhlutverki Háskólans í íslensku rannsóknasamfélagi.

Magnús Karl Magnússon er búinn öllum þessum styrkleikum.

Hann hefur margra ára farsæla reynslu af stjórnun innan Háskóla Íslands. Hann hefur dýrmæta reynslu af kennslu og rannsóknum við Háskólann og rannsóknastofnanir í Bandaríkjunum og hefur náð miklum árangri á sínu sérsviði. Auk þess hefur Magnús Karl sýnt að hann getur barist af hörku og visku fyrir því að íslenskt rannsóknasamfélag blómstri með virkri gagnrýni, skrifum og þátttöku í þróunarstarfi í yfir tuttugu ár.

Við undirrituð treystum Magnúsi Karli best til að gegna starfi rektors Háskóla Íslands og hvetjum ykkur öll sem atkvæðisrétt hafið til að kjósa hann í rektorskosningum sem framundan eru.

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands

Sigrún Helga Lund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands

Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands

Helga Zoega, prófessor í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands




Skoðun

Sjá meira


×