Skoðun

Opið bréf til sveitar­fé­laga um fram­boð á græn­ker­a­fæði í leik- og grunn­skólum

Björk Gunnarsdóttir og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir skrifa

Berist til sveitarstjórnar.

Samtök grænkera á Íslandi sendu í desember síðastliðnum áskorun til sveitarfélaga landsins varðandi framboð á grænkerafæði í leik- og grunnskólum. Undirtektir við henni voru dræmar og er það miður.

Fjöldi grænkera á Íslandi fer sívaxandi, einkum á meðal fólks á barneignaaldri. Það má því ætla að sá hópur barna sem elst upp á grænkerafæði heima við fari hratt stækkandi. Þrátt fyrir þetta er enn erfitt fyrir mörg börn að fá grænkerafæði í leik- og grunnskólum landsins. Margir skólar fara til að mynda fram á læknisvottorð um að börnin þoli ekki dýraafurðir. Sumir foreldrar bregða á það ráð að fá vistun fyrir börn sín fjarri heimili sínu til þess að þau geti fengið grænkerafæði í skólanum. Aðrir foreldrar nesta börn sín alla daga og kallar það á gríðarlegt aukaálag af hálfu foreldra.

Aukin eftirspurn eftir grænkerafæði kemur vel fram í tölum Skólamatar ehf. sem þjónustar marga leik- og grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum (1). Fyrirtækið hefur frá árinu 2017 boðið upp á grænkerarétt samhliða kjötrétti. Til að byrja með voru grænkeraréttir um 5% af heildarmat sem það sendi frá sér en hlutfallið var komið upp í 14% í byrjun árs 2021.

Embætti landlæknis gaf nýverið út handbók fyrir grunnskólamötuneyti (2). Handbókin er ætluð þeim sem útbúa mat fyrir nemendur í grunnskólum eða hafa áhrif á hvaða matur er þar í boði. Þar kemur eftirfarandi fram: „Ef eingöngu er um grænkerafæði (e. vegan) að ræða þýðir það að allar vörur úr dýraríkinu eru útilokaðar, það er að segja kjöt, fiskur, skeldýr, fuglakjöt, egg, mjólk og mjólkurvörur. Skólinn ætti að koma til móts við þarfir barnanna þannig að þau geti fylgt sömu áherslum í sínu fæði og heima eins og kostur er.“

Samtök grænkera á Íslandi telja ólíðandi með öllu að einungis lítill hluti barna á Íslandi hafi val um grænkerarétt í skólum sínum. Við köllum eftir því að frá og með hausti 2021 verði hægt að velja um grænkerarétt samhliða kjötrétti í öllum leik- og grunnskólum landsins.

F.h. Samtaka grænkera á Íslandi,

Björk Gunnarsdóttir og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir

Samtök grænkera á Íslandi standa nú fyrir söfnun á undirskriftum vegna þessa.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×