Skoðun

Mér ofbýður

Kjartan Mogensen skrifar
Mér ofbýður minnimáttarkennd og undirlægjuháttur þingmanna gagnvart erlendum auðmönnum, og mér ofbýður virðingarleysi þingmanna gagnvart eldri borgurum, öryrkjum og öðrum þeim sem vart hafa til hnífs og skeiðar.

Starfandi fiskeldisfélag, sem er að mestu eða öllu leyti í eigu útlendinga, eykur starfsemi sína án þess að hafa öll tilskilin starfsleyfi. Er það lögbrot eða hvað?

Á 24 tímum rennur í gegn á Alþingi, mótmælalaust, bráðabirgðafrumvarp sem gerir þessu fyrirtæki kleift að halda áfram. Á 24 tímum.

Undanfarna áratugi hefur alltaf í aðdraganda kosninga verið lofað að bæta kjör þeirra sem verst eru staddir.

Efndir svikinna kosningaloforða þekkja allir. Þetta er ekki hægt, kostar of mikið og áfram bla, bla, bla. Þær litlu breytingar sem gerðar hafa verið til að bæta lífsgæði þeirra verst settu eru ekkert annað en dúsa ofan á dúsu.

Fyrirhuguð 3,4% hækkun á greiðslu til eldri borgara frá Tryggingastofnun um næstu áramót er ekkert annað en dúsa og til skammar þingmönnum, sama hvar í flokki þeir eru.

Hvar er ykkar sómatilfinning?

Ykkur skortir dug og kjark til að breyta ónýtu kerfi í þá átt að það virki sem alvöruvelferðarkerfi fyrir allt þjóðfélagið sem því miður er orðið þannig í dag að lífsgæðum er svo misskipt að stór hluti fólks rétt skrimtir, er undir fátækramörkum meðan aðrir lifa í vellystingum praktuglega.

En fyrir fiskeldisfyrirtæki með mjög umdeilda starfsemi, að mestu eða öllu leyti í eigu erlendra auðmanna, þá er allt sett á fulla ferð í Alþingi og málið klárað, leyst 1, 2, og 3.

Ef þið haldið að svona gjörningur auki virðingu Alþingis þá eruð þið á algjörum villigötum. Virðing verður aðeins áunnin með góðum verkum.

Ég vil taka það fram að ég vil Vestfirðingum allt hið besta, vann um tíma á Ísafirði, leið vel í þeirra samfélagi og óska þeim alls hins besta.

Það eru vinnubrögð þingmanna, forgangsröðun verkefna og vanvirðing þeirra gagnvart samlöndum sínum sem mér ofbýður.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×